Sörur sörusystra

Litlar sörur eru um 200 stk.

Stærri sörur eru um 150 stk (bæta þá við 1-2 mín við baksturstímann).

Innihald

a) Sörubotn:

500 gr möndlumjöl

1 pakki flórsykur (500 gr)

6-7 stk eggjahvítur (210 gr -> vigtið, því rétt magn skiptir máli)

Aðferð:

  1. Setjið hvíturnar í hrærivélaskál og hellið flórsykrinum útí. Notið þeytarann. Setjið á lægstu stillingu í smástund, stoppið svo vélina og losið allan flórsykur frá hliðunum með sleikju. Þeytið á hæstu stillingu í 7 mínútur.
  2. Þegar marensinn er fullþeyttur er vélin stöðvuð og möndlumjölinu hellt út í skálina og sett á lægstu stillingu 15 sek. Takið skálina frá vélinni og blandið mjölinu varlega saman við marensinn með sleikju, farið vel út í hliðar og botn þótt ekki megi hræra mikið á þessu stigi. Mikilvægt er að mjölið blandist vel við marensinn.
  3. Síðan skal setja deigið með tveimur teskeiðum á bökunarpappír í jafn toppa (2 cm á milli). Haldið ykkur vel við efnið og ekki taka langan tíma í að klára úr skálinni, gott er að vera tilbúin með nýja plötu þegar sú fyrri er klár úr ofninum.

Baka við 180°C eða 165°C á blæstri í 11-13 mínútur.

Fylgist vel með eftir 10 mín og takið út þegar þær hafa tekið á sig gylltan tón. Dragið bökunarpappírinn af plötunni og yfir á grind og takið ekki af pappírnum fyrr en botnarnir hafa kólnað vel og botnarnir losna auðveldlega af.


b) Sörukrem:

3/4 dl sykur

1/2 dl vatn

3 stk eggjarauður - þeyta

150 gr smjör við stofuhita

1 msk kakó

Aðferð:

  1. Hitið vatn og sykur í potti og látið sjóða. Bráðin er hæfilega heit þegar dropi sem settur er í kalt vatn stífnar.
  2. Hellið þessu í mjórri bunu út í eggjarauðurnar og þeytið á meðan.
  3. Kælið eggjarauðuhræruna vel áður en smjörinu er bætt við.
  4. Hrærið smjörið þar til það verður mjúkt og setjið örlítið í einu saman við eggjarauðuhræruna.
  5. Hrærið vel í og bætið síðan kakó eftir smekk.
  6. Smyrja skal kreminu á öfuga hlið botnanna og kæla síðan.


c) Sörusúkkulaðihúðun:

Dökkt hjúpsúkkulaði

Aðferð:

  1. Bræða súkkulaðið yfir vatnspotti.
  2. Dýfa kremhliðinni á kökunum ofann í súkkulaðið.
  3. Kælið.