Þeytt smjör

Þeytt smjör

Heimild: https://www.hanna.is/?p=12748&fbclid=IwAR1xT1E4IKx7dJcM7bteLVmyW4DTHGvQmhSxUKUpRKbRgR0VpddTjOmWzb4

Þægilegast að bræða smjörið daginn áður, setja það í skál og láta það kólna yfir nótt. Smjörið, sem á að þeyta daginn eftir, er einnig gott að geyma úti yfir nótt svo að það sé vel mjúkt.

HRÁEFNI

  • T.d. 100 g smjör (sem á að bræða)
  • T.d. 100 g smjör – ath. að smjörið þarf að vera við stofuhita
  • Hugmyndir að bragðefnum: Saltflögur, nýmulinn pipar, lakkrísduft, mulinn harðfiskur, kavíar, krydd, chilli eða bara það sem hverjum og einum dettur í hug

VERKLÝSING

  1. 100 g smjör látið bráðna í potti (hef yfirleitt ekki minna en 50 g af hvoru eða 100 g í heildina). Það þarf smá lagni við að finna rétta augnablikið þegar taka á pottinn af hellunni. Smjörið er brætt á frekar háum hita. Þegar smjörið er að bráðna getur það skvest út í allar áttir og þarf að vara sig á því (stundum finnst mér skvettast meira ef minna magn er brætt). Þegar smjörið er bráðnað kraumar í því og það myndast hálfgerðir kristallar á yfirborðinu og síðan froða. Á þeim tímapunkti fer að myndast litur í botninum – þá er það tekið af hellunni. Smjörið má alls ekki brenna en betra að það komi smá litur á botninum í pottinum – ef þessi ljósbrúna skán, sem myndast, er látin fylgja með kemur örlítill sætur og góður karamellukeimur af smjörinu.
  2. Smjörið sett í skál og látið kólna – mér hefur reynst best að láta það standa úti yfir nótt ásamt smjörinu sem á að þeyta daginn eftir
  3. Smjörið við stofuhitann sett í skál og þeytt. Smjörinu, sem var brætt og hefur staðið úti, er bætt við og þeytt – sjá myndband
  4. Þeytta smjörið má setja beint í skál með sleif en einnig má setja það í margnota/einnota plastsprautu og búa til fallegar doppur á smjördiski. Þar sem einnota plastsprautan er ekki mjög umhverfisvæn er hún minna notuð
  5. Smjörið þolir vel að standa úti í nokkra daga