Kúskúsfylltar papríkur með blönduðum pipar frá Ostahúsinu
4 stórar paprikur, gjarnan mismunandi litaðar
3 msk ólífuolía
200 g kúskús
vatn eftir þörfum
safi úr 1 sítrónu
nýmalaður pipar
salt
150 g konfekttómatar (eða venjulegir)
2 vorlaukar
½ knippi steinselja, söxuð
1 ostarúlla með blönduðum pipar frá Ostahúsinu
Aðferð:
Ofninn hitaður í 180°C. Paprikurnar skornar í tvennt eftir endilöngu, stilkur, kjarni og fræ fjarlægt og þær síðan penslaðar með 1 msk af olíu og raðað í eldfast mót. Kúskúsið sett í skál, sjóðandi vatni hellt yfir samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og látið standa í um 5 mínútur. Þá er sítrónusafa, 2 msk af olíu, pipar og salti hrært saman við. Tómatarnir, vorlaukurinn og steinseljan söxuð smátt og blandað saman við. Paprikurnar fylltar með kúskúsblöndunni og síðan er ostarúllan skorin í sneiðar og 1-2 sneiðar settar ofan á hvern paprikuhelming. Sett í ofninn og bakað í 20-25 mínútur.
Borið fram með grænu salati og góðu brauði.
Höfundur uppskriftar: Nanna Rögnvaldardóttir